Skór skipta máli

Það eru ekki ný sannindi að skórnir skipti miklu máli, en spurningin er hvaða skór henta best? Allir hafa mismunandi göngu- og hlaupalag og þess vegna framleiða allir stóru hlaupaskóframleiðendurnir skó með fjölbreytta eiginleika fyrir mismunandi fótlag og niðurstig. Hlaupaskór hafa stungið flestan skóbúnað af í tæknilegu tilliti og eru orðnir mjög sérhæfðir og því auðvelt að kaupa skó sem henta ekki ákveðnu niðurstigi. Fimm algengustu skóflokkarnir eru: stöðugir, höggdempandi/normal, styrktir að innanverðu, léttir og utanvega skór.

Mikilvægt er að fá ráðleggingar fagmanns við val á réttum skóbúnaði þegar farið er af stað í æfingar og þjálfun. Rangur skóbúnaður getur ýtt undir hættu á meiðslum og valdið óþægindum í stoðkerfinu s.s. ökklum, hnjám, mjöðmum og baki. Best er að fara í göngugreiningu til að ganga úr skugga um að skekkjur í fótum hindri ekki leiðina að settu markmiði.
Framfarir í þjóðfélaginu hafa orðið miklar og hraðar og allt áreiti á líkamann hefur margfaldast þar sem við göngum og hlaupum alltaf meira og meira á hörðu undirlagi. Bakverkir og fótamein eru orðin algengur fylgifiskur hins daglega lífs. Það tekur líkamann langan tíma að byggja upp styrk í beinum og liðum til að mæta öllum þessum breytingum í umhverfinu. Þess vegna er góður skóbúnaður mikilvægari en nokkru sinni fyrr.

Lýður B. Skarphéðinsson / lydur@gongugreining.is
Elva Björk Sveinsdóttir / elva@gongugreining.is
Íþróttafræðingar og sérfræðingar í göngugreiningum